Ráðgjöf

RM Ráðgjöf sérhæfir sig í mannauðsráðgjöf og stjórnunarráðgjöf og leggur áherslu á persónulega þjónustu, fagleg og skilvirk vinnubrögð. Við leggjum metnað í okkar störf og áherslu á að skila viðskiptavinum árangri.

Ráðgjöfin er oft samtvinnuð námskeiðahaldi til að skerpa á árangri þeirra þátta sem unnið er með. Nánari lýsingar á greiningu, aðferðafræði og skipulagi vinnunnar fer fram í samráði við viðskiptavini.

RM Ráðgjöf hefur unnið að lausnum og aðstoðað fjölmörg fyrirtæki m.a. við eftirfarandi verkefni, til lengri og skemmri tíma:

Ráðgjöf í boði

Verkefnið „Fræðslustjóri að láni“ er unnið í samstarfi við Samtök atvinnulífssins og fræðslusjóði stéttarfélaganna en sjóðirnir greiða vinnu ráðgjafans. Ráðgjafi frá RM Ráðgjöf er fenginn til að greina fræðsluþörf í viðkomandi fyrirtæki eða stofnun.


Greiningarvinnan er unnin með starfsfólkinu og í kjölfarið kynnt fyrir stjórnendum og að því loknu er gerð fræðsluáætlun til ákveðins tíma. Í þessari vinnu kemur oft ýmislegt í ljós varðandi rekstur og samskipti sem gott er að fá fram. RM Ráðgjöf hefur unnið þetta verkefni fyrir um sjötíu fyrirtæki og stofnanir.

 

Starfslýsingar skilgreina hlutverk og ábyrgð starfsmanna fyrirtækja og stofnana og sýna stöðu þeirra í skipuriti fyrirtækis. Það er því mikilvægt að hafa þær sem nákvæmastar og uppfærðar fyrir öll störf. Starfslýsingar eru nauðsynlegar til að skýra verkefni, ábyrgðarsvið og hæfniskröfur starfa og einnig við undirbúning starfsmannasamtala. Þær nýtast vel við skilgreiningu starfa þegar auglýst er eftir starfsfólki og eru nauðsynlegar við jafnlaunavottun fyrirtækja.

Ráðgjöfin felst í því að greina stöðu starfslýsinga hjá viðkomandi fyrirtæki og í framhaldi af því eru þær ýmist unnar frá grunni eða byggt á þeim sem til eru, allt eftir aðstæðum hverju sinni. 

Það er öllum nauðsynlegt bæði einstaklingum og fyrirtækjum að skilgreina sig og vita fyrir hvað maður stendur. Gott er að nota gildi til þess, þau geta skilgreint fyrir hvað fyrirtækið stendur bæði inn á við og út á við og verið starfsmönnum og fyrirtækinu leiðarljós í allri starfsemi.

Ráðgjöfin felst í því að endurskoða og vinna með núverandi gildi fyrirtækisins eða innleiða ný. Lögð er áhersla á að sem flestir starfsmenn komi að vinnunni á einhverjum tímapunkti. Algengast er að vinna með gildi á vinnufundum með starfsfólki eftir ákveðinni aðferðafræði.

Greiningarfundir eru tilvaldir þegar þarf að greina ákveðin mál sem margir koma að. Markmiðið er að fá fram álit og skoðanir sem flestra þátttakenda og að hópurinn komi sér saman um lausn eða niðurstöðu. Á þann hátt er líklegra að hópurinn tileinki sér lausnina og vinni í samræmi við hana. Þessir fundir eru byggðir á aðferðafræði „wisdom of the crowd” sem m.a. var notuð á Þjóðfundunum 2009 og 2010.

RM Ráðgjöf hefur unnið verkefni fyrir ýmis fyrirtæki með þessari aðferð, m.a. í gildavinnu, stefnumótunarvinnu, fræðslugreiningu ásamt því að nota aðferðina sem hluta af vinnufundum.

Meginmarkmið jafnalaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.  Jafnlaunavottun var lögfest 2017 en minni fyrirtæki með 25-49 starfsmenn geta nú valið á milli jafnlaunavottunar eða jafnlaunastaðfestingar.  RM ráðgjöf veitir ráðgjöf við gerð jafnlaunastefnu, jafnréttisáætlunar, launagreiningar, starfaflokkunar og jafnlaunastaðfestingar eða jafnlaunavottunar,  í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.

Mannauðsmál geta verið tímafrek og krefjast ákveðinnar faglegrar þekkingar.  Sum fyrirtæki sjá sér hag í að láta utanumhald og þróun mannauðsmála að hluta eða öllu leyti í hendur annarra. Á þann hátt getur fyrirtækið frekar einbeitt sér að kjarnastarfsemi sinni.

Mannauðsstjóri að láni felst í því að mannauðsráðgjafi frá RM Ráðgjöf kemur inn í fyrirtæki og sinnir ákveðnum verkefnum, ýmist föstum verkefnum eða tímabundnum allt eftir nánara samkomulagi og/eða í kjölfar greiningarvinnu með viðkomandi fyrirtæki. Dæmi um verkefni sem mannauðsstjóri að láni á vegum RM Ráðgjafar hefur sinnt:

 • Innleiðing starfsmannasamtala
 • Gerð starfslýsinga
 • Gerð starfsmannahandbóka í vefviðmóti
 • Uppsetning mannauðsferla, frá ráðningu til starfsloka
 • Greining starfsmannaveltu og leiðir til úrbóta
 • Stefnumótun í mannauðsmálum
 • Handleiðsla stjórnenda
 • Jafnlaunavottun
 • Vinnustaðamenning
 • Breytingastjórnun
 • Mælaborð mannauðs
 • Nýliðaþjálfun
 • Kjaramál og samningagerð
 • Ráðningar og uppsagnir
 • Starfsþróunaráætlanir og innri fræðsla
 • Þarfagreiningar, s.s. vegna mannauðskerfa og mannauðsmælinga
 • Dagleg umsýsla mannauðsmála

Við þekkjum öll mikilvægi fyrstu kynna af vinnustað. Skipulögð móttaka nýliða sparar bæði tíma og fjármagn og eykur starfsánægju starfsmannsins og stuðlar jafnframt að því að hann skili starfi sínu með sóma sem fyrst.

Ráðgjöfin felst í því að greina stöðu nýliðamóttöku í viðkomandi fyrirtæki og í framhaldi af því er ferlið ýmist unnið frá grunni eða byggt á þeim gögnum sem til eru, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Ferlið byggir m.a. á gátlista sem tekur á helstu verkefnum og ábyrgð annarra starfsmanna fyrirtækisins gagnvart nýjum starfsmanni. Einnig er unnið með að þjálfa upp fóstra sem sjá um móttöku nýliða. Verkefnið er unnið í samráði við fyrirtækið og miðar að því að nýir starfsmenn fái góða og fræðandi móttöku þegar þeir hefja störf. Markmiðið er að starfsmenn geti sem fyrst tekist á við starfið, öruggir með sig og vissir um hvað beri að gera og hvernig. Árangursríkt er að halda námskeiðið Mentoranámskeið samhliða þessari ráðgjöf.

Nauðsynlegt er að hafa skýra mannauðsstefnu í fyrirtækjum til þess að öllum sé ljóst hverjar áherslur eru varðandi m.a. starfsumhverfi, starfsþróun, gildi, jafnrétti, samskipti, upplýsingaflæði og ímynd fyrirtækisins. Skýr stefna í mannauðsmálum hjálpar til við að þróa og styrkja fyrirtæki í heild sinni til framtíðar.

Ráðgjöfin felst í því að greina stöðu og stefnu starfsmannamála hjá viðkomandi fyrirtæki og í framhaldi af því er stefna í mannauðsmálum mótuð í samráði við stjórnendur ásamt vinnuhópum starfsmanna. Mikilvægt er að mannauðsstefnan sé samofin viðskiptastefnu fyrirtækisins til að hún skili sem best hlutverki sínu.  

Aðrar stefnur sem varða mannauð eru gjarnan órjúfanlegur partur af mannauðsstefnu, s.s. eins og jafnréttisstefna, jafnlaunastefna, stefna gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi, viðverustefna, samskiptasamningar, stefnur sem varða vinnuvernd starfsmanna og forvarnir, o.s.frv.  

RM Ráðgjöf hefur mikla reynslu af ráðningum fyrir fyrirtæki, þ.m.t. stjórn á ráðningarviðtölum, mati á umsækjendum og prófunum. 

Starfsfólk er ein mikilvægasta auðlind fyrirtækja. Skilvirkt ráðningarferlið ræður miklu um hvort tekst að ráða hæfasta einstaklinginn hverju sinni. 

Ráðgjöfin getur einnig falist í því að greina ráðningarferlið og í framhaldi af því er hannað ráðningarferli ýmist unnið frá grunni eða byggt á því sem til er. Ráðningarviðtalið er sniðið að þörfum fyrirtækisins en byggir m.a. á spurningum, flokkun þeirra, innihaldi og ákveðinni aðferðafræði. Markmiðið er að ráða þann umsækjanda sem nýtist fyrirtækinu best og er líklegastur til að endast í starfi og skila fyrirtækinu ávinningi. 

Nauðsynlegt er að hafa á einum stað allar upplýsingar um helstu atriði er varða starfsmenn og stefnu fyrirtækisins. Handbókin er unnin í samstarfi við stjórnendur og starfsmenn.

Ráðgjöfin felst í því að útbúa starfsmannahandbók ýmist frá grunni eða að yfirfara núverandi handbók fyrirtækisins. Starfsmannahandbókin inniheldur öll mikilvægustu atriðin er varða fyrirtækið og starfsmenn, s.s. jafnréttis-, heilsu-, starfsmanna- og eineltisstefna, móttöku nýliða, skipurit fyrirtækisins og samskiptaleiðir. 

Starfsmannahandbók er gjarnan sett upp í vefviðmóti til að einfalda uppfærslur og aðgengi að upplýsingum.  

Reynsla fyrirtækja af starfsmannasamtölum hefur sýnt að þau skila bæði starfsmönnum og stjórnendum miklum ávinningi.

Starfsmannasamtölin eru notuð til þess að yfirmaður og starfsmaður geti miðlað upplýsingum sín á milli á skipulagðan hátt, dregið saman helstu atriðin sem máli skipta og rætt þau. Starfsmannsamtölin stuðla þannig að skilvirkum samskiptum milli starfsmanna og yfirmanna og markar stefnuna fram á veginn. 

Ráðgjöfin felst í því innleiða starfsmannasamtöl eða yfirfara núverandi ferli í viðkomandi fyrirtæki. Samtölin eru sniðin að þörfum fyrirtækisins þar sem áhersla er lögð á samtalstækni, spurningar, flokkun þeirra og innihald ásamt tilgangi og ávinningi samtala. Árangursríkast er að ráðgjöfin sé samhliða námskeiðinu Starfsmannasamtöl.

Mikil starfsmannavelta hefur áhrif á afköst og starfsánægju starfsmanna og getur dregið úr framleiðni og þjónustugæðum og tekið óþarfa tíma frá starfsmönnum og stjórnendum.

Ráðgjöfin felst í því að greina starfsmannaveltu í viðkomandi fyrirtæki. Starfsmannaveltan er skilgreind, farið í ástæður, afleiðingar og kostnað, bæði leyndan og ljósan. Settar eru fram lausnir m.a. í formi breyttra vinnuferla við ráðningar og leiðir til að uppfylla væntingar og þarfir starfsmanna. 

Markmiðið er að draga úr starfsmannaveltu sem skilar sér bæði í fjárhagslegum ávinningi fyrirtækisins, auknum árangri og starfsánægju starfsmanna.

Stefnumótunarvinna

Í upphafi stefnumótunarvinnu er kjarnastarfsemi fyrirtækisins greind, hvar það er statt, hvar það vill vera og hvernig það kemst þangað. Spyrja þarf ýmissa gagnrýnna spurninga s.s. um rekstur, stjórnun, aðstæður og markmið fyrirtækisins mikilvægt er að svara þeim á heiðarlegan hátt og nota þau svör til að gera aðgerðaráætlun og móta þá sýn sem stefnt er að.

Hægt er að vinna með t.d. SVOT, PESTEL, OKR,  eða sambærilegar greiningaraðferðir til að skerpa á hlutverki og/eða framtíðarsýn fyrirtækisins.

Ráðgjöfin getur átt við einstakar einingar innan fyrirtækisins eða fyrirtækið í heild. Til að ná tilsettum árangri er nauðsynlegt að stjórnendur átti sig á stöðu, sýn og gildum fyrirtækisins til að vita hvernig staðan er og hvert skal stefna. Lögð er áherslu á að sem flestir starfsmenn komi að stefnumótunarvinnunni á einhverjum tímapunkti. Ýmist er unnið með fyrirtækjum sem hafa stefnu sem þarf að endurskoða eða stefnumótun unnin frá grunni.

Hlutverk ráðgjafa í stefnumótunarvinnu er oftast í formi verkefnastjórnar þ.e. að fá stjórnendur og starfsmenn til að draga fram ofangreinda þætti stýra vinnustofum/fundum og halda utan um gögn og verkskipulag. 

Að stefnumótunarvinnu lokinni liggja fyrir markmið, hlutverk, áætlun, framtíðarsýn, skilgreining á fyrirtækinu og staða þess gagnvart starfsmönnum, samkeppnisaðilum og viðskipatvinum.